Aug 25, 2012

Aug 25, 2012

VID-lén: einkar mikilvægt lén (very important domain)

ISNIC vinnur stöðugt að þróun skráningarkerfis .is-léna. Mikilvæg breyting, sem er ætlað að auka öryggi .is-léna enn frekar, er í farvatninu. Hún felst m.a. í því að hægt verður að merkja lén sem „einkar mikilvægt lén“, eða VID-domain (very important domain).

VID-lén munu fá sérstaka meðhöndlun hjá ISNIC, einkum hvað varðar réttindamál og endurnýjun árgjaldsins. Hægt verður að kaupa svonefnda VID-tryggingu, sem kemur í veg fyrir að VID-lén renni út vegna misgánings. Auk þess verður ekki hægt að skipta um rétthafa á VID-lénum með jafnauðveldum hætti og nú er á venjulegum lénum, heldur mun þurfa sérstakt samþykki rétthafans (eigandans), hvort heldur sem það verður rafrænt eða undirritað með gamla laginu.

Til þess að undirbúa þessa breytingu eru rétthafar léna beðnir um að uppfæra netfang rétthafans hjá ISNIC (eða nýskrá það) en netfang rétthafans má finna undir liðnum „Breyta lénaskráningu" á Minni síðu. Aðeins tengiliður rétthafa getur gert þessa breytingu. Þegar líður á haustið verður öllum tengiliðum rétthafa og rétthöfum með skráð netfang sendur tölvupóstur með nánari upplýsingum um þessa mikilvægu breytingu.

/jpj

 

 

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received