There was an error performing the search

The domain is available. Register domain

 ()

 
Signed Not signed

 

Registration verified by ISNIC

Dispute Issues

The Board of Appeals operates independent of ISNIC and handles conflict resoulution accoding to its charter.

The results of the appeals process are published in Icelandic.


 

Mál 1/2013

Ú R S K U R Ð U R

Hinn 15. október 2013 kvað úrskurðarnefnd léna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 1/2013:

Málavextir og sjónarmið málsaðila

Með bréfi dagsettu 10. september 2013 kærði Árnason Faktor, f.h. Zoetis Products LLC, til úrskurðarnefndar ISNIC skráningu lénsins zoet.is. Er þess krafist að lénið verði umskráð á kæranda, Zoetis Products LLC.
Kærði, Pierre-Olivier Fluder, skráði lénið zoet.is 19. júlí 2013. Var kærða tilkynnt um kæruna og efni hennar með tölvupósti þann 16. september 2013 og honum veittur einnar viku frestur til að koma að andmælum. Kærði andmælti kröfum kæranda samdægurs með tölvupósti.
Í kæru er því lýst að kærandi sé eigandi vörumerkisins ZOETIS og eigi fjórar vörumerkjaskráningar hér á landi, þ.e. orðmerkið ZOETIS, sbr. skráningar nr. 484/2012 í flokkum 5 og 10, nr. 455/2012 í flokki 31 og nr. 454/2012 í flokki 44. Einnig eigi hann merkið skráð í lítillega stílfærðri útgáfu, sbr. skráningu nr. 820/2001. Fylgigögn með kærunni báru með sér að eigandi framangreindra vörumerkjaskráninga væri félagið Alpharma LLC. Með heimild í 37. gr. reglna ISNIC um lénaskráningu aflaði úrskurðarnefnd gagna úr vörumerkjaskrá er sýna að framangeindar vörumerkjaskráningar voru umskráðar á nafn kæranda þann 2. júlí 2013.
Kærandi telur að kærði hafi með skráningu lénsins zoet.is brotið gegn reglum ISNIC um lénaskráningu. Kærði hafi skráð lén sem er eins og skrásett orðmerki hjá Einkaleyfastofu sem skráð var áður en lénið var skráð, hann hafi ekki lögmæta hagsmuni af notkun lénsins, enda sé það ekki í notkun og hafi verið boðið til sölu, og að hann hafi ekki verið í góðri trú um rétt sinn til lénsins þegar það var skráð.
Kærði andmælir því að hann hafi skráð lén sem er eins og skrásett orðmerki hjá Einkaleyfastofu. Orðmerkið hjá Einkaleyfastofu sé „Zoetis“, en lénsheiti hans sé „zoet“. Ótækt sé að líta á .is-endinguna sem hluta af lénsheitinu í þessu samhengi. Zoetis Products LLC hafi ekki sérstakan rétt á orðmyndinni „zoet“.

Niðurstaða

Ákvæði 40. gr. reglna ISNIC um lénaskráningu kveður á um að skráður rétthafi verði ekki talinn eiga rétt til ákveðins léns ef öll eftirfarandi atriði eiga við:
• Lén er eins og skrásett vörumerki sem orðmerki hjá Einkaleyfastofu, sem skráð var áður en lénið var skráð.
• Sá sem lénið skráði hefur ekki lögmæta hagsmuni af notkun lénsins.
• Sá sem lénið skráði var ekki í góðri trú um rétt sinn til lénsins þegar það var skráð.

Í þessu máli lýtur ágreiningur aðila að fyrst talda atriðinu. Hið skrásetta vörumerki kæranda er ZOETIS, en lénið sem krafist er að verði umskráð er zoet.is. Orðalag ákvæðis 1. tölul. 40. gr. reglna um lénaskráningu felur í sér afdráttarlausa kröfu um að lén sé eins og skrásett vörumerki. Ef höfuðlénið „is“ teldist hluti lénsins í þessu samhengi yrði ekki hjá því komist að líta jafnframt á punktinn, sem aðgreinir orðmyndina „zoet“ frá höfuðléninu, sem hluta lénsins. Þetta leiðir til þess að hið skrásetta vörumerki getur ekki talist hið sama og lénið sem um ræðir. Er því ekki unnt að líta svo á að fullnægt sé því skilyrði að lénið sem óskast umskráð sé eins og hið skrásetta vörumerki. Ber því að hafna kröfu kæranda um umskráningu lénsins.

Úrskurð þennan kváðu upp Erla S. Árnadóttir, Tryggvi Þórhallsson og Guðmundur Ragnar Guðmundsson.

Úrskurðarorð:

Krafa Zoetis Products LLC, þess efnis að lénið zoet.is verði umskráð á félagið, er ekki tekin til greina.

Erla S. Árnadóttir, hrl.
Tryggvi Þórhallsson
Guðmundur Ragnar Guðmundsson