Aug 11, 2015

Aug 11, 2015

Markaðshlutdeild ISNIC 47%

Samkvæmt nýútkominni skýrslu Centr.org – samtökum lénastjórnenda (e. Registry) í Evrópu og víðar – er markaðshlutdeild landshöfuðlénsins ".is" 47% á Íslandi í upphafi árs 2015 á móti 52% samanlagðri hlutdeild hinna almennu rótgrónu höfuðléna (e. legacy gTLD) eins og .net, .org, .info og .com, sem er þeirra lang-lang-stærst.

Í upphafi árs 2015 var fjöldi skráðra .is léna 53.530 en 58.489 almenn höfuðlén (mest .com) voru skráð á aðila til heimilis á Íslandi á sama tíma. Þess ber að geta að um 25% allra .is léna eru skráð á rétthafa búsetta utan Íslands. Sé tekið tillit til þess er markaðshlutdeild ISNIC innanlands – reiknuð með þessum hætti – jafnvel enn lægri eða einungis um 40%. Hins vegar er markaðshlutdeild ISNIC á virkum lénum innanlands óþekkt, því ekki er vitað hversu mörg lén (undir .is, .com o.fl.) eru á hverjum tíma í virkri notkun, s.s. fyrir vef og tölvupóst, á Íslandi. ISNIC telur hlutdeild sína á þannig „virkum lénum“ innanlands vera mun hærri en 47%, eða um og yfir 80%. Vel má vera að ISNIC hlutist til um að safna upplýsingum um fjölda léna í hýsingu á Íslandi í framtíðinni.

Nýju höfuðlénin svokölluðu, sem enda flest á alls kyns almennum orðum, heitum (t.d. .berlin), bókstöfum (t.d. .xxx) eða kínverskum táknum, sem hvorki fyrirfinnast á meðal landsléna né heldur hinna gamalgrónu almennu höfuðléna, virðast eiga erfitt uppdráttar. Þannig eru einungis samtals 377 lén skráð undir nýjum höfuðlénum á Íslandi og vinsælast þeirra er ".bike". Athygli vekur að nýlegt höfuðlén Evrópusambandsins, .eu, sem Íslendingum stendur til boða að skrá undir, telur einungis 309 lén hér á landi. ISNIC hefur verið boðið að þjónusta og selja .eu-lénið í samstarfi við EURID, en ekki talið það svara kostnaði.

Þegar pælt er í markaðshlutdeild einstakra höfuðléna á ákveðnu landsvæði ber fyrst að hafa í huga að lén eru notuð til ýmissa annara hluta en fyrir vefi og tölvupóst, en einnig hitt að fjölmörg skráð lén sjá aldrei dagsins ljós á netinu. Þannig eru um 3.500 .is léna vistuð á biðsvæði ISNIC um þessar mundir. Lénakaupmenn svokallaðir, sem skrá og versla með lén á heimsvísu, sitja á ótrúlegum fjölda léna sem þeir trúa að eigi eftir að hækka í verði. Lénakaupmönnum má því líkja við verðbréfaspekúlanta, en án þeirra er sagt að enginn alvörumarkaður þrífist til lengdar.

Fá má skýrsluna hjá Centr.org, eða með fyrirspurn á isnic@isnic.is.

Fyrir áhugasama er hér listi yfir 60 ríkustu „léna-milljónamæringa“ veraldar!

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received