Mar 22, 2017

Mar 22, 2017

Rangfærslur í umfjöllun um ISNIC

Vegna viðtals við framkvæmdastýru STEF í  fréttatíma Stöðvar 2 þann 20. mars 2017 vill ISNIC leiðrétta eftirfarandi rangfærslur sem fram komu í viðtalinu:

Fyrst ber þess að geta að ISNIC stendur með rétthöfum hugverkarréttinda og hefur enga samúð með þeim sem stela höfundarréttarvörðu efni á netinu, rétt eins og ISNIC stendur með rétthöfum .is léna. Báðir þurfa skjól í öruggum rekstri sem viðhefur sanngjarnar leikreglur. Reglur ISNIC eru ekki einkamál ISNIC og ekki léttvægar, eins og látið var að liggja í fréttinni. Þær eru afrakstur um 30 ára reynslu í innlendu netsamfélagi og eiga uppruna sinn að rekja til frumkvöðla Internetsins, með vísun í meginstaðal þess, RFC 1591, sem er nk. hvítbók Internetsins, samin af Jon Postel heitnum, einum helsta upphafsmanni netsins og útgefið í mars 1994. Megið stefið í RFC1591 er að rekstraraðili höfuðléns skal koma eins fram og af sanngirni við alla rétthafa. Það hefur ISNIC ávallt gert.

Árás framkvæmdastýru STEF á orðspor ISNIC verður að skoða í samhengi við þá staðreynd að ISNIC hefur með ráð og dáð barist gegn lögbanni því sem STEF fékk (illu heilli) sett á nokkur lén árið 2014. Þar er ISNIC að verja DNS-kerfið og þar með eina af grunnstoðum Internetsins. Sérstaklega er mótmælt þeim orðum að það sé undir "duttlingum stjórnenda ISNIC komið hvort lokað verði fyrir lén eða ekki" svo notuð séu hennar orð. Þetta er algerlega úr lausu lofti gripið og gert til þess að laska gott orðspor ISNIC. Allir sem til okkar þekkja vita að ISNIC fer mjög stíft eftir reglum um skráningu .is léna. Viðtalið í heild bendir til þess að viðmælandi þekki ekki muninn á léni og vefþjónustu sem hugsanlega er veitt undir viðkomandi léni.

ISNIC vekur athygli á eftirfarandi rangfærslum í „frétt“ Stöðvar 2:

1. Í byrjun viðtalsins við talsmann STEF er talað er um að "sækjast eftir skráningu undir .is". Þetta er villandi og röng orðanotkun. Allir geta skráð .is lén. Skráning léns felur ekki í sér umsókn um lén, heldur skráir fólk hugmyndir sínar sjálft í skráningarferlinu og býr sjálft til lénið án beinnar aðkomu starfsmanna ISNIC. Engu "eftirliti" verður við komið á meðan á skráningu léns stendur, né heldur mætti viðhafa slíkt, án þess að troða freklega á réttindum fólks til að skrá hugmyndir sínar. Sá sem skráir lén er jafnframt höfundur þess og ber ábyrgð á skráningu og notkun lénsins.

2. "Engin lög eru til um skránigu og úthlutun léna á Íslandi". Þetta er gömul tugga sem oft heyrist hjá fréttastofum landsins þegar fjallað er um ISNIC. Þau fáu lög sem sett hafa verið um lén í heiminum, fjalla yfirleitt aðeins um tæknilegar lágmarkskröfur og þær skildur sem settar eru til rekstraraðila. Fáum öðrum en Kínverjum hefur dottið í hug að setja í lög hver má skrá lén, hvernig lén má skrá og hvernig megi nota lén. Er STEF að leitast eftir því að á Íslandi verði sett upp nefnd sem skoði vefsíður reglulega og banni svo öll lén sem tengjast vefsíðum sem nefndinni hugnast ekki þá stundina? Líklega ekki.

3. ..."að á Íslandi hafi myndast skjól fyrir rekstur ólöglegra síðna? (vefsíðna)". Enn og aftur er lénum og vefjum ruglað saman og ISNIC ruglað saman við vefhýsingarfyrirtæki. Vinsamlega athugið að ISNIC hýsir engar vefsíður, enga vefþjóna, enga póstþjóna, eða nokkra aðra þjónustu sem geymir eða flytur efni á netinu. Þótt lokað sé á lén þá hverfur engin vefsíða. Það er mjög mikilvægt í umræðunni að hafa þetta á hreinu.

4. Trúverðugleiki höfuðléna. Þetta hugtak er ISNIC einkar hugleikið og við erum mjög meðvituð um að vernda orðspor .is. Lítum raunar á það sem eitt af okkar höfuðhlutverkum. Einn mælikvarði á trúverugleika getur verið öryggi (e. security) vefsíðna sem finna má undir viðkomandi höfuðléni. Öryggi gagnvart almennum notendum hefur verið kannað reglulega m.t.t. höfuðléna sem á þær vísa af McAffe.com öryggis fyrirtækinu.  Niðurstöðurnar eru birtar í skýrslum sem heita "Maping the Mal Web". Skemmst er frá því að segja að .is lénið var á meðal 10 minnst varasömu (least riskiest) höfuðléna í heimi og í efstu 5 sætunum árin 2007, 2008, 2009 og 2010. (The Web's riskiest places to visit).  Við höfum ekki ástæðu til að ætla að það hafi breyst.

5. Rangt er einnig að piratebay.is "hafi verið hrakið héðan". Þarna var farið með rangt mál. Lénið er í fullri notkun og enn til eins og sjá má hér: https://www.isnic.is/en/whois/mini?query=piratebay.is. Aftur á móti er það líklega rétt, sem fram kom í fréttinni, að fleiri streymisveitur hafi skráð .is-lén á undanförnum árum, en á árum áður, enda er .is-lénið almennt að verða vinsælla. Því miður gildir það líka varðandi óprúttna aðila. Athugið þó að mikið er af löglegu efni er að finna á streymisveitum, t.d. reka bæði Vodafone og Síminn steymisveitur. ISNIC veitir samskonar þjónustu og mörg önnur systurfyrirtæki ISNIC gera, sem t.d. STEF gæti nýtt sér ef þau hefðu vit til. Hún felst í því að senda ISNIC ábendingar um hugsanlega rangt skráð lén, en rétthöfum .is-léna ber skv. 24gr. skráningarregla ISNIC skylda til að skrá rétt nafn og heimilisfang og viðhalda skráningunni. Geri rétthafinn þetta ekki getur ISNIC lokað fyrir aðgang viðkomandi rétthafa að ISNIC-kerfinu, sem að endingu leiðir til þess að lénið lokast og eyðist svo sjálfkrafa 60 dögum síðar. Þessi háttur var t.d. hafður á við lokun lénanna kalifa.is og kalifha.is, sem vísuðu á vef hinna illræmdu "ISIS" hryðjuverkasamtaka. Þetta er á engann hátt sambærilegt við skráningu lénsins putlocker.is.

6. Fullyrðingu um "geðþóttaákvarðanir stjórnenda hverju sinni" eru rangar. ISNIC hefur aldrei í 30 ára sögu sinni lokað léni á grundvelli innihalds á vefsíðu. ISNIC var beinlínis að brjóta alþjóðlegt viðskiptabann með því að bregðast ekki við skráningu ISIS hryðjuverkasamtakanna og á þetta benti Utanríkisráðuneytið ISNIC. Rétt er hins vegar að ISNIC brást fljótt við þrýstingi og setti lokun í gang á grundvelli 4. liðar í 22.gr. reglnanna um skráningu .is-léna. Aukinheldur var ISNIC fyrst og fremst að vernda trúverðugleika .is lénsins og orðspor ISNIC.

7. "Ísland er eina landið, allavega í hinum vestræna heimi, sem ekki er með nein lög um úthlutun á landsléninu sínu" Þessi fullyrðing er einnig röng. Í öllum löndum gilda skráningarreglurnar sem viðkomandi skráningarstofa (e. Registry) hefur sett sér. Þessar reglur hafa verið að þróast í 30 ár og síðan 1995 undir hatti þess aðila, sem fer með stjórnun internetsins á heimsvísu, IANA/ICANN, sem ISNIC er fullgildur aðili að eins og sjá má neðst á þessari forsíðu ISNIC: https://www.isnic.is/is/about/isnic. Þótt ICANN fari ekki með stjórn .is, þá er mikið og virkt samstarf milli skráningarstofa á heimsvísu. ISNIC er einnig virkur félagi í CENTR.org, sem er félagsskapur Evrópskra skráningarstofa.

  • a. Í fyrsta lagi þá hafa afar fá lönd (ef nokkur utan Kína) sett sérstök lög sem segja til um hvernig "úthlutun á lénum" skuli háttað. Nærtækasta dæmið er Bretland (.uk), með um 11 milljónir léna, næst stærsta lén Evrópu. Þar í landi eru engin sérstök lög um skráningu .uk eða co.uk léna. Nominet (breska skráningarstofan) hefur hins vegar eigin lénaskráningarreglur, sem svipar í öllum meginatriðum til reglna ISNIC. Þær má finna hér
  • b. Finnland er eitt fárra landa, (ásamt Kína), þar sem ríkið rekur landslénið. Ekki einu sinni þar eru sérstök lög um skráningu léna (hvað þá úthlutun) léna. Hins vegar setti rekstraraðilinn (Ficora.fi, finnska Póst- og fjar) mjög strangar skráningarreglur með  alls kyns boðum og bönnum, sem þeir hafa reyndar undið ofan af undanfarin ár. Sjá nánar t.d. hér og hér
  • c. Í Danmörku voru á sínum tíma sett 50 síðna lög um skráningu .dk. Alþingi tók mið af þessum lögum í vinnu við frumvarp um .is (sem stóð yfir í mörg ár) sem var síðan fallið frá eftir að þáverandi ráðherra  kynnti sér málið. Þrátt fyrir þessi löngu, og nú skrítnu lög, eru reglur DKhostmaster.dk (dönsku skráningarstofunar) alveg sambærilegar við ISNIC. Í fyrstu grein laganna segir t.d. að drottningin eigi öll .dk lén! Ekkert í lögunum virðist hafa náð að koma í veg fyrir skráningu óprúttinna aðila á .dk lénum sem fjölmörg eru notuð til að vista vafasamt efni (t.d. klám).
  • d. Svíþjóð setti á sínum tíma örstutt lög sem hafa á engan hátt með skráningarreglur IIS.se að gera. ISNIC benti stjórvöldum á þessi lög á sínum tíma og lét þýða þau á íslensku, margt úr þeim var notað í frumvarpið sem aldrei varð að lögum.
  • e. Færeyjar (.fo) hafa engin lög og hafa nýlega fellt öll boð og bönn úr gildi.
  • f. Þýskaland (.de) langstærsta landalén Evrópu með rúmlega 16 milljónir léna. Þar gilda regur DENIC (þýsku skráningarstofunar) og almenn landslög rétt eins og hér á landi. Þar gilda svipuð lög og lög nr. 57/2005, sem Neytendastofa starfar eftir, en ISNIC og Neytendastofa eru í reglulegum samskiptum þegar upp koma deilur um lén. Þýsku reglurnar, DENIC-Domainrichtlinien, má  finna má hér (og nú kemur sér vel að skilja þýsku).

8. og síðasta athugasemd ISNIC. STEF kallar eftir "lögum sem banna að ólögleg starfsemi geti [ekki] verið skráð undir .is lénum", eins og það var orðað. Þetta er varla svaravert, en benda má á að væru slík lög sett þyrfti auðvitað að byrja á að afskrá lén eins og facebook.is, google.is, ebay.is, youtube.is o.s.frv þar sem á vefjum þessara léna má auðvitað finna einhverja "ólöglega starfsemi" á hverjum tíma. Til að gæta jafnræðis þyrfti síðan að setja lögbann á að Íslendingar geti farið á vefi lénanna facebook.com, google.com, ebay.com, youtube.com o.s.frv. - Allir sjá hvernig þetta myndi enda!

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received