Feb 8, 2018

Feb 8, 2018

Eyðingu og lokun léna flýtt frá 1. apríl 2018

ISNIC undirbýr nú að afnema hina svokallölluðu „frídagareglu“, sem verið hefur við líði frá því elstu menn muna. Regla þessi (sem er skrifuð inn í hugbúnað ISNIC) hefur komið í veg fyrir að lén, sem ekki hafa verið endurnýjuð tímanlega, lokist og/eða eyðist á almennum íslenskum frídögum.

Frídagareglan var nauðsynleg þegar lén voru eingöngu endurnýjuð með bankamillifærslum og bókun þeirra handbókuð á skrifstofutíma. Nú er öldin önnur og í janúarmánuði voru aðeins 18 lén endurnýjuð með millfærslum.

Afnám reglunnar gerir ISNIC kleift að auka enn á sjálfvirkni kerfisins, sem er lykilforsenda þess að halda árgjaldi léna áfram óbreyttu. Samfara afnámi gömlu (góðu) frídagareglunnar verða reikningar með árgjaldi léna sendir út með 30 daga fyrirvara (gjaldfresti) í stað 45 daga áður, sem þýðir að lokun léns (lén gert óvirkt) sem ekki hefur verið endurnýjað verður 15 dögum fyrr á ferðinni en nú er, sé miðað við birtingardag reiknings.

Tíminn sem líður frá lokun léns að eyðingu þess (svonefnt grace period á ensku) verður einnig styttur úr 60 dögum í 30 daga, sem er jafnlangur tími og hjá flestum höfuðlénum, þótt 15 dagar þekkist líka. Breyting þessi tekur gildi eftir 1. apríl 2018.

Eftir ofangreindar breytingar mun ISNIC tilgreina nákvæmlega klukkan hvað og hvaða dag óendurnýjuðu léni verður lokað (gert óvirkt á netinu) og hvenær nákvæmlega því verður síðan eytt, sem verður 30 dögum eftir lokun þess. Með þessu móti verða lén sem hefur verið eytt, laus til skráningar á ný einum mánuði fyrr en áður. Það munar um minna fyrir ISNIC.

 

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received