Mar 16, 2020

Mar 16, 2020

Áframsending um allan heim

Fyrir viku síðan gangsetti ISNIC nýtt kerfi fyrir þau lén sem hýst eru hjá okkur, það er, .is lén sem eru á biðsvæði eða í Áframsendingu.

Vinsældir og mikilvægi Áframsendingarinnar hafa aukist jafnt og þétt síðan byrjað var að bjóða upp á þjónustuna. Sívaxandi hluti viðskiptavina okkar treystir á kerfið til að hýsa lénin þeirra og vísa tölvupósti og vefheimsóknum rétta leið.

Okkur þótti því kominn tími til að auka þjónustustigið og tryggja notendur þjónustunnar betur gegn sjaldgæfum bilunum. Meginkostur nýja kerfisins, er að það dreifir vinnslunni betur um Netið; nú eru nafnaþjónar og vefþjónar fyrir áframsendingu bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, auk þjónanna sem alltaf hafa verið á Íslandi. Einnig er nafnaþjónn í Asíu sem bætir til muna svartíma og áreiðanleika fyrirspurna frá Asíu og Eyjaálfu.

Með þessum breytingum er tryggt að þó að truflun verði á netsambandi Íslands við umheiminn, þá mun öll heimsbyggðin áfram geta flett upp og átt í samskiptum við lén sem eru í Áframsendingu.

Vöktun þjónustunnar var endurbætt, meðal annars með því að taka í notkun RIPE Atlas til að mæla reglulega afköst og virkni Áframsendingarinnar frá öllum heimshornum. Um leið var kerfið allt gert sveigjanlegra á margan hátt, svo auðveldara verður að útvíkka og endurbæta þjónustuna í framtíðinni.

Eins og svo oft gildir um innviðabreytingar, ættu viðskiptavinir okkar ekki að verða varir við neitt, nema ef til vill ögn betri svartíma þegar lénum í Áframsendingu er flett upp erlendis frá.

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received