May 3, 2008

May 3, 2008

ICANN semur við ISNIC

Internet á Íslandi hf. (ISNIC deildin) og Internet Corporation for Assigned Names and Numbers (ICANN) hafa skrifað undir tvíhliða samning um reksturinn á rótarléninu .IS. Með honum er viðskiptasambandinu, sem ríkt hefur milli ISNIC og ICANN í áraraðir, komið í formlegan búning.

ICANN fer með hlutverk IANA (The Internet Assigned Numbers Authority) og sér í þess nafni um stjórnun mikilvægra öryggis- og gæðamála sem snerta og tryggja gallalausan rekstur Internetsins. ICANN semur aðeins við aðila sem það telur treystandi til þess að reka rótar- og þjóðarlén eftir reglum IANA. Hlutverki IANA er lýst þannig á ensku: "The Internet Assigned Numbers Authority is responsible for the global coordination of the DNS Root, IP addressing, and other Internet protocol resources."

Undirritun samningsins við ICANN er mikilvægur og ánægjulegur bautasteinn fyrir starfsmenn og starfsemi Internets á Íslandi. Í henni felst opinber traustsyfirlýsing á gæðum þjónustunnar, sem notendum .is léna er veitt af ISNIC, frá hendi þess sem fer með stjórnun Internetsins á heimsvísu.

Í þessu sambandi má geta þess að andi Internetsins er sjálfstæði og sjálfstjórnun gagnvart yfirvöldum og ríkisstjórnum hvar sem er í heiminum. Internetið er sjáflsprottið risavaxið ævintýri sem nær langt út fyrir valdmörk yfirvalda og ríkisstjórna flestra landa og færir sífellt fleiri jarðarbúum aðgang að upplýsingum og þar með aukinni hagsæld. Eins og dæmin sanna (t.d. frá Kína og Sádí-Arabíu) þarf Internetið sem slíkt ætíð að berjast fyrir áframhaldandi sjálfstæði sínu. Samningnum við ISNIC er öðrum þræði ætlað að vernda þetta mikilvæga sjálfstæði, sérstaklega hvað .is lén varðar.

Leave a message and we will reply as soon as we can.
1+3:

Message received