Fyrirtækið

Tilurð ISNIC og tilurð Internetsins sem slíks á Íslandi er samofin. Internet á Íslandi hf. (ISNIC) var stofnað 1995 til að halda utan um reksturinn á íslenska hluta Internetsins (ISnet). ISNIC var reist á grunni tveggja félagasamtaka; SURIS (Samtök um upplýsinganet rannsóknaraðila á Íslandi) og ICEUUG (Icelandic Unix Users Group) sem höfðu rekið ISnet frá því það var sett á laggirnar 1986. Fyrsta nettengingin var við evrópska EUnet-netið að tilstuðlan starfsmanna Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnunar. Fyrstu .is-lénin voru hafro.is, hi.is og os.is (Orkustofnun). Fyrstu starfsmenn ISNIC voru Helgi Jónsson, sem einnig var framkvæmdastjóri félagsins til ársins 2007, og Maríus Ólafsson MSc. stærðfræðingur, sem er net- og gæðastjóri ISNIC. ISNIC var fyrsti íslenski aðilinn sem gerðist félagi í RIPE (Samtök netþjónustuaðila í Evrópu) og fékk fyrst íslenskra aðila úthlutað IP-tölu (130.208.0.0/16) og AS-númerinu 1850 (Autonomous System Number). Þá tók ISNIC við stjórn landslénsins .is sem IANA (Internet Assigned Numbers Authority) hafði falið SURIS þegar árið 1988. Svona varð Internetið á Íslandi til, í stuttu máli.

Íslenska Internetið (ISnet) óx hratt og í maí 1995 ákváðu félagsmenn ofangreindra samtaka að stofna hlutafélag um reksturinn undir heitinu Internet á Íslandi hf. eða "INTÍS". Heitið "ISNIC" kom til síðar og tók mið af stuttum heitum sambærilegra félaga erlendis. "ISNIC" stendur fyrir IS Network Information Center. ISNIC var fyrsti (og framan af eini) internetþjónustuaðili (ISP) landsins. Upphaflega tengdust því allir innlendir netnotendur í gegnum ISNIC. Þeirra á meðal voru Háskóli Íslands og aðrar menntastofnanir, ýmsir rannsóknaraðilar, ráðuneytin, nokkur stór einkafyrirtæki, ríkisbankarnir og Alþingi Íslendinga, sem enn er hluthafi í ISNIC. Margir af þessum frumherjum í hópi internetnotenda gerðust stofnaðilar að Interneti á Íslandi hf. og fengu afhentan hlut í félaginu til samræmis við viðskiptin sem þeir höfðu átt við fyrirrennara þess, SURIS.

Árið 2000 var ISNIC enn stærsti netþjónustuaðilinn á Íslandi með yfir 200 fyrirtæki og stofnanir í beinum viðskiptum og tengipunkta í Reykjavík, Akureyri, Keflavík og á Akranesi. Útlandasambönd voru til New York og Stokkhólms. Nokkurum árum áður (1996) hafði áhugi Landssíma Íslands, sem þá var ríkisfyrirtæki, vaknað á Internetinu og ný internetþjónustufyrirtæki hófu að bjóða upp á ISP þjónustu. Árið 2001 seldu Háskóli Íslands, ríkissjóður og ýmsir minni eigendur um 93% hlutafjár ISNIC til Íslandssíma hf., nýs símafyrirtækis, sem síðar varð Vodafone. Í framhaldinu var ISP-þjónustan skilin frá ISNIC og eftir stóð minna fyrirtæki sem sinnti rekstrinum á landsléninu .is og miðlæga internettengipunktinum RIX (Reykjavik Internet Exchange ).

Í mars 2007 seldi Teymi hf. (móðurfélag Vodafone) Modernus ehf. hlut sinn í ISNIC og 1. janúar 2008 sameinuðust Modernus og ISNIC undir merkjum þess síðarnefnda. Starfsemi ISNIC skiptist nú í þrjú meginsvið: (1) Reksturinn á rótarnafnaþjóninum fyrir .IS og rétthafaskrár .is léna. (2) Starfrækslu á Reykjavik Internet Exchange (RIX) og (3) hugbúnaðar- gagnaþjónustu Modernus , sem felur í sér Samræmda vefmælingu á Íslandi, Svarbox samskiptakerfi fyrir vefi og Varðhundinn, vaktkerfi fyrir vefþjóna.

Eins og áður sagði hefur ISNIC (og fyrirrennari þess SURIS) skráð .IS lén frá árinu 1988. Á fyrstu árunum fjölgaði lénum hægt, enda lítil þörf fyrir hvort heldur tölvupóst eða lén á þessum tíma. Fjöldi .is-léna tók fyrst að vaxa fyrir alvöru upp úr 2004, en þá, 15 árum eftir að skráningar hófust, voru virk lén aðeins um 7.000 að tölu. Í ársbyrjun 2007 er fjöldinn orðinn tvöfalt meiri og í ársbyrjun 2013 er fjöldi virkra léna um 41.400.

Samkvæmt mælingu McAfee fyrirtækisins er .IS eitt af fimm öruggustu höfuðlénunum (TLD) í heiminum 2007 og 2008 . Sjálfvirk skráning .is léna varð möguleg þegar árið 2001 og var .is í hópi fyrstu höfuðléna heimsins til að ná þeim árangri. Hins vegar var ekki hægt að greiða með kreditkorti fyrr en í júlí 2008. Kerfi ISNIC fylgjast reglulega með tæknilegri uppsetningu allra .is léna og sendir rétthafa og tæknilegum tengilið athugasemdir sem þeir verða að bregðast við til þess að halda léninu. Þetta, ásamt strögnum kröfum um réttmæti upplýsinga í rétthafaskrá ISNIC (Whois), gegnir lykilhlutverki í því að viðhalda öryggi og trúverðugleika .is léna. Virkni og aðgengi .is aðalnafnaþjónsins (master nameserver) er tryggð af mörgum varanafnaþjónum sem staðsettir eru víðsvegar umhverfis jörðina. Nafnaþjónarnir uppfæra sig á tuttugu mínútna fresti við rétthafaskrá ISNIC (Whois) sem staðsett er á tveimur stöðum á Íslandi. Í tuttugu ára sögu .is hefur aldrei komið til óundirbúinnar rekstrarstöðvunar.

Samræmd vefmæling hóf að birta vikulegar upplýsingar um vinsældir íslenskra vefja með samræmdu sniði þann 1. maí 2001. Um 150 íslenskir vefir taka þátt í Samræmdri vefmælingu um þessar mundir, þ. á m. flestir ef ekki allir stærstu vefir landsins. Hópur fulltrúa stærstu vefjanna, svonefndur samráðshópur um Samræmda vefmælingu, semur og útfærir sérstakar reglur, sem þátttökuvefirnir undirgangast. ISNIC (Modernus deildin) rekur samskonar þjónustu í Færeyjum í samstarfi við Gallup Föroyar.

Þjónusta án hagnaðarmarkmiða

RIX (Reykjavik Internet Exchange) samtengipunkturinn er opinn innlendum og erlendum netþjónustuaðilum. Hann er staðsettur í Tæknigarði við Suðurgötu, og í Katrínartúni 2 Reykjavík. Rixinn hefur þann tilgang að koma í veg fyrir að innlend internetumferð flæði um útlandasambönd og dregur þannig úr samskiptakostnaði tengdra aðila. Þá styttist viðbragðstími innlendrar netnotkunar internetnotendum til góðs. Í dag eru 26 AS númer eru tengd Rixinum .

Árið 2003 tók ISNIC að sér að spegla (afrita og reka) K-rótina, sem er einn af 13 rótarnafnaþjónum heimsins, sem aftur jók enn áreiðanleika nafnaþjónsrekstursins fyrir Ísland og þar með .IS. ISNIC hefur engar tekjur af þessari þjónustu heldur er hún veitt í anda Internetsins og kemur öllum til góða.

Tímaþjónn ISNIC var gangsettur árið 2012 og hann skráður í ntppool.org .

Siðan 2016 hefur ISNIC hýst fyrir Verisign J-rótina/gTLD anycast þjóna en það dregur úr svartíma og eykur áreiðanleika gTLD höfuðléna á Íslandi.

Upplýsingar um fyrirtækið

(samkvæmt lögum nr. 30 2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu)

Nafn: Internet á Íslandi hf. ISNIC.
Stuttnafn: ISNIC
Aðsetur: Katrínartúni 2
105 Reykjavík
Kennitala: 660595-2449
Almennt netfang: isnic@isnic.is
Sími: 578-2030
VSK númer: 46757
Skráning: Fyrirtækið er skráð í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra .
Leyfi og samningar:
  1. Skráning léna undir .IS er falin ISNIC samkvæmt ákvörðun IANA/ICANN í samræmi við RFC1591 og ICP-1.
  2. Samningur ICANN og ISNIC um rekstur landslénsins .IS
  3. Fjarskiptaleyfi, Póst- og fjarskiptastofnun.
ISNIC er aðili að:
  1. CENTR - Council of European National Top-level Domain Registries.
  2. EURO-IX - The Association of European Internet Exchanges.
  3. ccNSO - The Country Code Names Supporting Organisation.
  4. RIPE - RIPE Network Coordination Centre.

Error
Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.

Skilaboð móttekin

Veftré
Fara upp