Rótarlén heimsins eru mjög misjöfn að gæðum. Tæknilegt öryggi rótarléna, magn ruslpósts sem berst frá þeim og áreiðanleiki upplýsinga (Whois) um rétthafa eru atriði sem byggja upp trúverðugleika rótarléna. Á fundi norrænnu NIC-fyrirtækjanna (NIC = Network Information Center), sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum í sumar, var sérstaklega fjallað um öryggismál á Internetinu. Rótarlénin .fi Finnland, .no Noregur, .se Svíþjóð, .fo Færeyjar og .IS Ísland, eru öll meðal öruggustu og bestu rótarléna í heiminum samkvæmt McAfee-skýrslunni (06/2008).
Rótarlénið .IS mælist skv. McAfee fjórða besta og öruggasta rótarlénið í Evrópu hvað tæknilega uppsetningu, efnisinnihald, magn ruslpósts og trúverðugleika varðar.
Verstu rótarlén heimsins eru hins vegar: .info, .ro (Rúmenia), .ws Samoa Eyjar (sem fæst gefins), .hk (Hong Kong), .cn (Kína), .ru (Rússland), .cc (Cocos Eyjar, (fæst einnig gefins). Öll þessi lén eru flokkuð sem beinlínis varasöm. Á óvart kemur versnandi staða hinna vinsælu rótarléna; .net, .com, .biz og .org. Þau mælast með 2,32% til 21,95% villutíðni af skoðuðum tilfellum.
Til samanburðar mælist .is aðeins með 0,29% villutíðni. Finnska rótarlénið, .fi, mældist með 0,05% villutíðni, lægst allra léna. Nokkuð strangar reglur ISNIC um upplýsingagjöf rétthafa við nýskráningu, tíð sjálfvirk athugun á uppsetningu léna og kröfur ISNIC um viðhald uppsetningar, eru lykillinn að góðri stöðu rótarlénsins "punktur is".