6. feb. 2012

6. feb. 2012

Miklar breytingar framundan á netinu?

Í vor rennur út umsóknarfresturinn til að sækja um nýtt höfuðlén hjá skráningarfyrirtæki Netsins, ICANN. Ný höfuðlén, sem þegar hefur verið sótt um, eru t.d. borgarlénin .berlin og .hamburg, en báðar borgirnar hafa samið við austurríska einkafyrirtækið NIC-AT GmbH (sem jafnframt er skráningarstofa landslénsins .at) til að reka þau fyrir sig.

Annað nýtt höfuðlén sem sótt hefur verið um er .bosch, sem alþjóðlega fyrirtækið Bosch AG sótti um fyrir skömmu. Þar á bæ ætla menn að freista þess að nýta DNS-kerfið (nafnaþjónustu Netsins) til þess að halda utan um vöruheiti fyrirtækisins en þau skipta tugum þúsunda. Rætt er um að íhlutir í bifreiðar, t.d. bremsuklossar og rúðuþurkur, fái hver sitt eigið lén sem nota má t.d. til þess að panta eftir. Lén á Netinu er gætt þeim fágæta eiginleika, að það getur ekki átt sér sinn líkan í víðri veröldinni. Ruglingshættan er því engin svo lengi sem lénið er rétt skrifað. Tölvur eiga auðvelt með að lesa lén og þetta tvennt ætlar hinn stóri íhlutaframleiðandi greinilega að nýta sér með einhverjum hætti. Hér gæti orðið um algerlega nýtt notkunarsvið innan Internetsins að ræða. Eigandi höfuðléns setur léninu sjálfur reglur, ákveður verð þess og annað varðandi lénið líkt og um aðra hugbúnaðarþjónustu.

Víst er að ýmis höfuðlén sem sótt hefur verið um munu ekki eiga erindi sem erfiði því mjög vandasamt og dýrt er að koma á fót höfuðléni og markaðssetja það. Núverandi þekkt höfuðlén (sem eitthvað kveður að) eru aðeins um 200 að tölu í öllum heiminum. Þau hafa bæði tæknilegt og markaðslegt forskot, enda eru þau elstu orðin 25 ára gömul eins og t.d. landslénið .is, sem á stórafmæli í nóvember þessu ári.

Nýleg höfuðlén sem ekki hefur tekist að gera vinsæl, þrátt fyrir gjóðan vilja, eru t.d. .museum, sem var ætlað söfnum, .name, sem ætlað var einstaklingum, .mobi, sem ætlað var farsímaþjónustu og .travel, sem einnig hefur átt erfitt uppdráttar. Hins vegar virðist klámlénið .xxx, ætla að spjara sig þrátt fyrir spár um annað.

Annað virðist nú uppi á tengingnum hjá ICANN, sem hingað til hefur haldið fast í fyrstu útgáfu Internetsins, ef þannig má orða það. Nú virðist eins og stefnt sé að því að opna algerlega fyrir lénaskráningar beint undir rót DNS-kerfisins og ef fram heldur sem horfir má búast við að innan nokkurra ára standi þúsundir nýrra höfuðléna netnotendum til boða. Þá hefur umsóknargjaldið einnig lækkað og er nú "aðeins" $185.000 auk árgjalds, sem reyndar hefur enn ekki verið ákveðið. Af þessu má sjá að það gætu verið miklar breytingar framundan á Netinu.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin