14. sep. 2013

14. sep. 2013

.is aflar gjaldeyris

Höfuðlénið „.is“ er landslén Íslands og merkingin „is“ kemur úr alþjóðlega staðlinum ISO 3166-1 líkt og t.d. bílnúmersauðkennið IS, og landsnúmerið +354. Með því að nota ISO staðalinn fyrir landslén sáu frumkvöðlar internetsins fyrir sér að flokka mætti nafnaskráningu netsins eftir löndum og svæðum jarðarinnar, líkt og gilti (og gildir jafnvel enn) um símanúmer og bílnúmer. Þessháttar flokkun er á undanhaldi á netinu og fyrir um tveimur árum hóf ICANN, stjórnandi Internetsins á heimsvísu, að taka á móti umsóknum um hvers konar höfuðlén.

Flokkun þessi þýðir ekki að öðrum en Íslendingum sé bannað að skrá lén undir höfuðléninu .is. Þannig hefur það aldrei verið, enda geta verið margar góðar og gildar ástæður fyrir skráningu .is-léns, aðrar en þjóðernislegar. Hins vegar tala og skrifa næstum engir aðrir en Íslendingar íslensku og því sér tungumálið eitt og sér til þess að rétthafar íslenskra lénaheita (.is-lén sem skrifuð eru á íslensku) eru og verða fyrst og fremst Íslendingar.

Á hinn bóginn fjölgar .is-lénum með skráðan rétthafa utan Íslands (slæmt orðalag væri: „íslensk lén í eigu útlendinga“) núorðið jafnhratt og lénum skráðum á Íslendinga. Þegar þetta er ritað eru t.d. 3395 .is-lén skráð í Bandaríkjunum, eða um 8% allra .is-léna. Um 1219 lén (3%) eru skráð í Þýskalandi, 938 (2%) í Bretlandi, 811 í Noregi, 493 (1%) í Svíþjóð og 483 í Danmörku. Jafnvel í Japan er 51 .is-lén skráð! Samtals eru um 23% allra .is-léna skrásett erlendis og á þessu ári býst ISNIC við að fjórðungur árssölunnar komi frá útflutningi. Höfuðlénið „.is“ er því orðið gjaldeyrisskapandi afurð fyrir Ísland.

Upplýsingar um fjölda nýskráninga, afskráninga, markaðshlutdeild hýsingaraðila og margar fleiri áhugaverðar staðreyndir, má sjá undir liðnum Tölulegar upplýsingar á vef ISNIC.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin