3. mar. 2014

3. mar. 2014

Agnúar á netinu einna fæstir á Íslandi

Út er komin umfangsmikil skýrsla, Greasing The Wheels of the Internet Economy, um stöðu internetsins í mörgum löndum heims, sem ICANN (samræmingaraðili internetsins) fékk Boston Consulting Group til að gera. Í skýrslunni má m.a. lesa að Ísland lendir í 7. sæti á lista sem sýnir hlutfall agnúa (e. friction) sem mæta notendum internetsins. Efst trónir Svíþjóð, með fæsta agnúa, en neðsta sætið vermir Nigeria. 55 atriði voru tekin til skoðunar, allt þættir sem talið er að hafi áhrif á netnotkun almennings, fyrirtækja og stjórnvalda.

Ísland er hins vegar í fyrsta sæti á heimsvísu yfir fjölda skráðra léna á mann, eins og sjá má á s. 31 í þessari umfangsmiklu skýrslu. Ekki er þó saman að jafna í þessum efnum, því hlutfall erlendra rétthafa .is-léna er um 1/3 og mun hærra en gengur og gerist hjá stórum höfuðlénum eins og t.d. .se (Svíþjóð) og .dk þar sem hlutfallið er um 1/10. Önnur smá landshöfuðlén s.s. .me (Svartfjallaland) og .lu (Luxemborg) hafa aftur á móti enn hærra hlutfall erlendra rétthafa en .is-lénið. 

Það sem helst dregur einkunn Íslands niður í þessari könnun eru hraði og verð nettenginga, notkun netbanka og netöryggismál. Ýmislegt í þessari skýrslu orkar þó tvímælis og ekki er alveg ljóst hvernig höfundar hafa komist að birtri niðurstöðu.

 

 

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin