14. apr. 2015

14. apr. 2015

Ágæti viðskiptavinur...

Mörgum þykir ISNIC senda viðskiptamönnum sínum of mörg sjálfvirk bréf. Sérstaklega á þetta við um þá viðskiptamenn (rétthafa) sem eiga mörg lén – skiljanlega. Bréfin frá ISNIC innihalda þó eingöngu mikilvæg skilaboð og þau gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda miklu öryggi .is-léna, t.d. með því að hvetja rétthafa reglulega (minnst árlega) til að uppfæra upplýsingarnar sem ISNIC vinnur eftir. Þetta á sérstaklega við um netföng (email) tengiliða, greiðanda, gildistíma greiðslukorta og tæknilega uppsetningu léns á nafnaþjónum. Þessu er vissulega ekki svona farið um mörg önnur höfuðlén, en það gildir ISNIC einu.

Þjónusta ISNIC er í eðli sínu „sjálfsafgreiðsluþjónusta“, sem þýðir m.a. að rétthafinn er ábyrgur fyrir því að skráning léns sér rétt, þ.m.t. svokallaðar tengiliða-upplýsingar. Fyrir kemur að rétthafi léns tapi léni sínu fyrir það eitt að netfangið hefur ekki verið uppfært, sem aftur leiðir til þess að aðvaranir ISNIC berast honum ekki, t.d. aðvörun um að lénið hafi runnið út, eða verið flutt yfir á biðsvæði ISNIC vegna rangrar uppsetningar á nafnaþjóni þar sem það dagar uppi og deyr að lokum.

Eitt mikilvægasta bréfið sem ISNIC sendir rétthafa léns árlega byrjar svo: „Ágæti viðskiptavinur. Meðfylgjandi eru upplýsingar um skráningu lénsins „xxxx.is“ í rétthafaskrá ISNIC. Vinsamlega farðu vandlega yfir [þær]...“.

ISNIC á því miður óhægt um vik við að fækka bréfunum – enn meir en gert hefur verið – án þess að láta af öryggiskröfum sínum, sem eru jafn miklar varðandi öll .is-lén. Hægt væri að ímynda sér að sérstakur flokkur einkar mikilvægra léna yrði tekinn upp og að aðeins slík einkar mikilvæg lén fengju (þessar hvimleiðu) ábendingar í tölvupósti. Það gæti hins vegar leitt til minna trausts allra .is-léna. Það viljum við ekki og því biðjum við viðskiptavini ISNIC um að sinna bréfum frá ISNIC og henda þeim ef engu þarf að breyta. Slíkt ætti ekki að taka nema um hálfa mínútu í hvert sinn. Við munum áfram reyna að hafa ábendingar ISNIC eins fáar og stuttar og kostur er.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin