13. júl. 2017

13. júl. 2017

Auðveld innskráning og sumarlén

Auðveldari innskráning. Lítil en mikilvæg breyting hefur nú verið gerð á notendaviðmótinu, viðskiptamönnum til hægðarauka. Nú inniheldur skráningarskírteini lénsins (Whois leitin, sjá efst) einnig hlekki í innskráningu ISNIC og áfram þaðan í Týnt lykilorð.

Þeir notendur (tengiliðir) sem hafa skráð GSM númerið sitt inn, undir Mínar stillingar, geta valið að fá svokallaðan staðfestingarkóða (talnarunu) sendan í símann og þannig endurstillt lykilorðið. Hinir fá vefslóð senda með tölvupósti, sem þeir opna til að búa til lykilorð. Í rauninni er óþarfi að muna lykilorðið hjá ISNIC, frekar en hjá öðrum góðum vefþjónustum.

Sumarlén. ISNIC bendir á að lén er yfirleitt hægt að greiða í netbankanum og alltaf má greiða með greiðslukorti hér á vef ISNIC. Á sumrin kemur oftar en annars fyrir að lén falli óvart út sökum þess að gleymst hefur að endurnýja þau, t.d. v. sumarleyfa. Þetta kemur síður fyrir lén sem eru í skráð í svokallaða sjálfvirka endurnýjun, en til þess þarf viðkomandi að skrá inn greiðslukort og setja lénið í sjálfvirka endurnýjun. Takist ekki að skuldfæra kortið, er krafa stofnuð í netbanka – greiðsluseðill – 45 dögum fyrir lokadag lénsins og hann sendur með tölvupósti og/eða landpóstinum, allt eftir því hvernig greiðandi lénsins hefur stillt þjónustuna á Mín síða. ISNIC-kerfið reynir því að endurnýja lén, sem er í sjálfvirkri endurnýjun fyrst 60 dögum fyrir lokadag þess. Takist það ekki innan tveggja vikna (t.d. ef engin heimild fæst) er stofnaður og sendur út greiðsluseðill.

Fátt er bagalegra í augum ISNIC en þegar lén lokast óforvandis (þ.e.a.s. að óvörum, óvart, eða af vangá). Vefur, tölvupóstur og ýmis önnur netþjónusta s.s. IP-símar detta út um leið og lénið verður óvirkt (rennur út). Það er því afar mikilvægt að lénið og tengiliðir þess sé rétt skráð í ISNIC-kerfinu. Rétthafi léns er ábyrgur fyrir því að skráning lénsins sé rétt á hverjum tíma. Hægt er að skrá lén til allt að fimm ára í senn, en bent skal á að árgjöld léna eru fyrirframgreidd og fást ekki endurgreidd.

 

 

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin