4. jan. 2021

4. jan. 2021

Burðargjald hækkar

Prent- og burðargjald hækkar um 100 krónur.

Burðargjaldið, sem aðeins leggst við árgjaldið hjá þeim sem það velja, hækkaði í upphafi árs úr kr. 202 í kr. 282 (kr. 350 m. vsk), eða sem nemur útlögðum kostnaði ISNIC (224 krónur til Íslandspósts og 58 krónur fyrir umslag, prentun og vinnu).

Árið 2020 voru 14.69% árgjaldsreikninga ISNIC prentaðir á pappír og sendir með Íslandspósti, eða 10.957 reikningar. ISNIC vinnur að því að draga úr pappírsnotkun, umhverfisins vegna, en árið 2013 voru 77.54% reikninga ISNIC sendir út með Íslandspósti. Við stefnum að því að hlutfallið fari niður í 10% í ár og að lokum heyri það til undantekninga að prenta út reikninga. Þó ber að hafa í huga, að til eru einstaklingar og fyrirtæki sem þurfa að fá útprentaðan reikning sendan til sín.

Tillaga um hækkun árgjalds léns

Stjórn ISNIC tekur á næsta stjórnarfundi (29.1.) fyrir tillögu framkvæmdastjóra um hækkun árgalds léns úr kr. 5.980 í kr. 6.290 (5.2%). Verði tillagan samþykkt verður það í fyrsta sinn í sögu félagsins (frá 1995) sem árgjald léns hækkar. Árgjald léns var lengi kr. 7.980, eða frá árinu 2000 til 2007, er það var lækkað í kr. 6.980. Árgjald léns var svo lækkað aftur um eittþúsund krónur nokkrum árum síðar (2012) í það sem það er nú, eða kr. 5.980.

Ástæða tillögu minnar um hækkun árgjaldsins er mikil hækkun rekstrarkostnaðar (aðallega launakostnaðar) undanfarin fimm ár og sérstaklega á síðasta ári, er ný lög um mikilvæga innviði tóku gildi. Uppsöfnuð hækkun vísitölu launakostnaðar á Íslandi er rúm 50% frá árinu 2015 skv. Hagstofu Íslands.

Jens Pétur Jensen,
framkvæmdastjóri ISNIC.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin