20. des. 2023

20. des. 2023

Leiðin að sterkara interneti

Megináherslur fyrir næsta stafræna áratug

Sviðsmyndin

Árið 2024 verður mikilvægt hvað stafræna stefnumótun hjá Evrópusambandinu og EES löndunum varðar. Þá fá stefnumótendur (policymakers) tækifæri til að forgangsraða í lagasetningu fyrir internetið til næstu 5 ára á nýju þingi ESB, en metnaðarfull markmið á borð við: „sýndarheim“, „yfirlýsingu um framtíð internetsins“, „stafrænan áratug í Evrópu“ og „stafræn réttindi og meginreglur“ svo eitthvað sé nefnt hefur verið haldið á lofti undanfarið – einkum af yngri stjórnmálamönnum. Með þetta í huga, leggur CENTR*, samtök evrópskra skráningarstofa, fram eftirfarandi meginreglur (principles) til að vernda stafræna framtíð Evrópu á komandi áratug:

[* í CENTER samtökunum (European Top Level Domain Registries) eru höfuðlén Evrópu auk Canada (.ca), Japans (.jp), Nýja sjálands (.nz), Ástralíu (.au), Ísrael (.il). Höfuðlén bandaríska stórfyrirtækisins Verisign (.com) er aukaaðili. Innan CENTR eru alls 51 skráningastofa, sem þjóna um 80% allra skráðra léna í heiminum. Skráningarstofur höfuðléna bera ábyrgð á, reka og viðhalda tæknilegum innviðum fyrir efsta lag lénaheitakerfisins, e. „Domain Name System“ (alltaf kallað DNS).]

Eftirfarandi meginreglur byggja á reynslu þessara lykilinnviða netsins, sem höfuðlénin eru, en DNS er rótgróið hugbúnaðarkerfi netsamskiptareglna í hjarta innviðar internetsins. Það kortleggur notendavæn (læsileg) lén og stýrir þeim yfir á töluleg (IP) vistföng. DNS er notað af sérhverri netþjónustu (tölvu) sem keyrir á internetinu, þjónustu sem er annað hvort sýnileg notendum (t.d. vefsíðum og tölvupósti) eða ósýnileg á bak við tjöldin t.d. spjallkerfi, IP-símar og tæknileg innviðastýring af ýmsum toga. Mjög mikilvægt er að þekkja muninn á léni og vefsíðu. Skráningarstofur höfuðléna hýsa ekki vefsíður.

Skráningarstofur höfuðléna, eins og ISNIC, DENIC, Norid, DkHostmaster og aðrir tæknilegir netinnviðir, búa yfir áratuga langri reynslu í netþjónustu við almenning, sem við viljum gjarnan miðla til stjórnmálamanna og annarra sem hafa áhuga á að setja internetinu reglur.

Allt of margir taka þessa innviði sem sjálfsögðum hlut, bæði hvað löggjöf og stefnumótun varðar – jafnvel þegar netinnviðirnir eru beinlínis í brennidepli. Þannig truflar (sennilega óvart) sumt í löggjöf landanna, getu tæknilegra innviða til að sinna nauðsynlegri þjónustu fyrir stafrænt samfélag (netið). Jafnvel þó DNS og internetstaðlar sé afar stöðugt kerfi, verður næsta kynslóð stefnumótenda engu að síður að líta á netið og einstaka hluta þess í heild sinni og leggja sitt af mörkum til að styrkja það, en forðast setningu reglna sem veikja það.

Í stafrænni stefnu ESB er brýn þörf fyrir meiri þekkingu um þá tæknilegu staðla og samskiptareglur sem mynda hryggjarstykki internetsins, sem byggja verður á hér eftir sem hingað til. Án þessa sterka og stöðuga kjarna, sem hefur gert internetinu kleift að vaxa og dafna og verða ómissandi hluti af samfélaginu, er framtíð internetsins sett í óvissu.

Stjórnmálamenn, einkum þeir sem vilja beita sér fyrir betra interneti (e. Next Generation Internet), ættu að grípa tækifærið og skuldbinda sig til að viðhalda kjarnaþáttum hins frjálsa og opna internets. Þetta er það sem hefur gert upplýsingasamfélaginu kleift að þróast og mun áfram færa ávinninginn af nettengdum heimi til allra. Í þessu skyni býður CENTR eftirfarandi meginstef til leiðbeiningar fyrir stefnumótun á næsta kjörtímabili ESB, sem hefst 2024:

Samvirkni (e. Interoperability)

Stefnumótunaraðilar ESB/ESA verða formlega að viðurkenna opna internet staðla og stuðla að notkun þeirra með opinberum innkaupum til að styðja við ókeypis „Næstu kynslóðar internet“ – net sem er opið fyrir alla, einstaklinga jafnt sem fyrirtæki og stofnanir.

Næsta kynslóð Netsins verður áfram að byggjast á opnum stöðlum. Góður árangur og mikill sveigjanleiki internetsins varð aðeins mögulegur fyrir tilstuðlan opinna staðla. Staðla sem eru aðgengilegir almenningi, þróaðir með gagnsæjum hætti og opnir fyrir þátttöku allra. Opnir internet staðlar tryggja samvirkni og samræmi (samþýðanleika) milli mismunandi þjónustu á netinu og stuðla þannig að vali notenda og aukinni samkeppni.

Stjórnvöld ættu að viðurkenna opna staðla formlega sem raunhæfan kost í lögsögu sinni þegar þróun nýrrar tækni er rædd. Allir hagsmunaaðilar, þar með talið hið opinbera, ættu að taka þátt í þróun opinna staðla.

Á vettvangi ESB ættu opinber innkaup að styðja og hvetja til lausna byggða á opnum stöðlum í stað lokaðra kerfa. Slíkt myndi efla samkeppni á markaðnum, tryggja aukið úrval af þjónustu til notenda og forða þjónustuveitendum og söluaðilum frá því að lokast inni í ákveðnum kerfum. Allt er þetta mikilvægt fyrir þróun „næstu kynslóðar internetsins“.

Næsta kynslóð Netsins mun standa á öxlum núverandi innviða netsins, svo sem DNS, Internet Protocol Suite og annarra staðla og samskiptareglna, sem voru þróaðar og er viðhaldið innan núverandi alþjóðlegra staðla- og samhæfingaraðila, aðila sem allir byggja á fjölhagsmunalíkaninu (e. Multi Stakeholder Model) og gerir öllum kleift að taka þátt – óháð uppruna eða búsetu.

Næsta kynslóð internetsins verður að tryggja áframhaldandi rekstrarsamhæfi og samræmi (samþýðanleika) við núverandi grunnhluta nauðsynlegra netinnviða, sem hafa sannað getu sína til að viðhalda skalanlegu interneti í gegnum mörg þróunarstig þess. Til þess að viðhalda frjálsu og opnu interneti og getu þess til að þróast áfram, án þess að útiloka nokkurn, er samvirkni við núverandi innviði Netsins algerlega nauðsynleg.

Þýtt og staðfært af Jens P. Jensen/ISNIC.
Reykjavík, desember 2023.

Skildu eftir skilaboð og við munum hafa samband næsta virka dag.
1+3:

Skilaboð móttekin