Lestu lénið þegar verslað er á netinu
Nú styttist í eitt mesta netverslunartímabil ársins með Singles Day, Black Friday og Cyber Monday í vændum. Því miður fylgir þessum dögum aukin hætta á netsvikum og fölskum vefverslunum.
Við hjá ISNIC viljum hvetja alla sem versla á netinu til að sýna sérstaka aðgæslu og kynna sér einföld ráð sem geta minnkað líkurnar á því að lenda í netsvikum.
Okkar helsta ráð er að lesa lénið vel. Algeng aðferð svikara er að skrá lén sem líkjast lénum þekktra fyrirtækja og vörumerkja, t.d. með smávægilegri stafsetningavillu eða undir öðru höfuðléni.
Dæmi um slíkt er elko-ehf.is, sem var skráð af óprúttnum aðila til að líkja eftir Elko raftækjaverslun. Í ákveðnum tilfellum getur verið erfitt að sjá muninn á svikaléninu og réttu léni, t.d. rnicrosoft.com, aríon.is og lsland.is.
Þá gætu óprúttnir aðilar einnig skráð eins lén undir öðru höfuðléni, t.d. isnic.shop eða isnic.ls, og þannig þóst vera isnic.is, og það ber að varast.
Til að forðast þessa tegund svika, er best að skrifa lénið inn í vafra, í stað þess að smella á hlekki úr tölvupóstum, leitarvélum, sms-um eða á samfélagsmiðlum.