20. jan. 2026

20. jan. 2026

Lénaárið gert upp

Árið 2025 var gott ár í lénaskráningum. Alls voru 15.375 lén nýskráð, sem er mesti fjöldi nýskráðra .is léna á einu ári frá upphafi. Fyrra metið var 14.825 nýskráð lén árið 2021.

Afskráð voru 11.134 lén á árinu, sem gerir nettófjölgun léna 4.241. Heildarfjöldi skráðra léna í árslok var 98.168. Nýskráningar ársins voru 57% innlendar og 43% erlendar, en afskráningar 54% innlendar og 46% erlendar. Nettófjölgun léna var því 64% innlend og 36% erlend, en hlutfall skráðra .is léna í heild er um 70% innlend og 30% erlend.

Á árinu var fjárfest myndarlega í tölvubúnaði og hafa kerfissalir ISNIC verið uppfærðir með nýjum vélum og tækjum sem auka öryggi og áreiðanleika nafnaþjónustunnar enn frekar.

Internet á Íslandi hf. varð 30 ára gamalt á árinu, en félagið var stofnað í maí 1995. Skráning .is léna á sér þó lengri sögu, en fyrsta .is lénið, hi.is, var skráð í desember 1986 og verður því 40 ára gamalt á árinu 2026.

Árið einkenndist af breytingum hjá félaginu. Eigendaskipti urðu þegar SÍA IV slhf., framtakssjóður í rekstri Stefnis og að meirihluta í eigu lífeyrissjóða, keypti meirihluta hlutafjár í Interneti á Íslandi hf. Þá lét Jens Pétur Jensen af störfum á árinu, eftir að hafa gegnt stöðu framkvæmdastjóra frá árinu 2007.

ISNIC þakkar viðskiptamönnum og rétthöfum .is léna fyrir samstarfið á liðnu ári og við hlökkum til að ganga inn í 31. starfsár félagsins með öryggi, áreiðanleika og traust að leiðarljósi.

Þór Jensen,
framkvæmdastjóri.