Með notkun á þessum vef samþykkir þú vistun á kökum (e. cookie) frá ISNIC.
Athugaðu að sumar aðgerðir eru óaðgengilegar, nema kveikt sé á Javascript.

Fréttir

16. apr. 2018 - GDPR og Whois þjónusta ISNIC

GDPR og Whois þjónusta ISNIC

[eftirskrift: neðangr. breytingar tóku gildi 23.4.]

Í stuttu máli verða eftirfarandi breytingarnar gerðar á birtingu upplýsinga úr rétthafaskrá ISNIC og taka þær gildi fyrir gildistöku GDPR þann 25. maí.

Í tilviki einstaklinga (tengiliður merktur P): Nafn, heimilisfang og símanúmer tengiliðs verður sjálfkrafa falið. NIC-auðkenni, netfang, land og aðrar upplýsingar verða áfram birtar.

Í tilviki fyrirtækja, stofnana og annarra aðila (tengiliður merktur R): Engar breytingar.

ISNIC hefur ákveðið að gera lágmarksbreytingar á birtingu persónugreinanlegra upplýsinga í rétthafaskrá ISNIC (Whois) þannig að hætt verður að birta nafn og heimilisfang einstaklinga. ISNIC telur sig þar með hafa uppfyllt ákvæði nýrra laga Evrópusambandsins um persónuvernd (GDPR) utan þess að netföng einstaklinga verða birt áfram. Þeir einstaklingar sem ekki vilja birta netfang sitt, eins og það er skráð hjá ISNIC, verða því að útvega sér annað (ópersónugreinanlegt) netfang til notkunnar í rétthafaskrá ISNIC, skrá sig inn á sitt svæði og breyta því þar.

Athugið að rétthafar (t.d. einstaklingar með rekstur) sem engu að síður vilja birta nafn og heimilisfang eftir breytinguna þurfa að skrá sig inn á sitt svæði á isnic.is (undir sínu NIC-auðkenni) fara í "Mínar stillingar" og velja að birta nafn sitt og heimilisfang.

ISNIC, eins og fjölmargir aðrir, þ.á.m. ICANN.org, gagnrýnir EU og GDPR reglur þess harðlega, þ.e.a.s. gildi þær  um birtingu nafns, heimilisfangs og netfangs tengiliða í rétthafaskrá (Whois) léna. Gagnrýnin lítur að því að þing EU virðist meta þarfir almennings og fyrirtækja fyrir upplýsingar um rétthafa, og aðra tengiliði léna (gagnsæi), minna en þörf einstaklinga fyrir að fela upplýsingar um sjálfa sig.

GDPR getur því leitt til minna gagnsæis á netinu, þvert á það sem kallað hefur verið eftir. Í ljósi þess að nauðsynlegt getur verið fyrir fólk og fyrirtæki (eins og t.d. internetþjónustur) sem og fyrir ýmsar stofnanir hins opinbera, að ná með einföldum hætti sambandi við rétthafa léns, hefur ISNIC ákveðið, upp á sitt eindæmi, að birta hér eftir sem hingað til uppgefið netfang tengiliðs og nafn landsins sem hann býr í.

Reykjavík, 16. apríl 2018.

Jens Pétur Jensen, framkv.st.

 

4. apr. 2018 - Eyðingarfrestur léna nú 30 dagar í stað 60 áður.

Eyðingarfrestur léna nú 30 dagar í stað 60 áður.

Áður auglýst stytting eyðingarfrests (e. grace-period) .is-léna, úr 60 dögum í 30 daga, og afnám frídagareglunnar svokölluðutók gildi í dag, 4. apríl.

Mikilvæg lén ætti undantekningarlaust að setja í svokallaða "sjálfvirka endurnýjum" á greiðslukorti. Þjónustuaðilum ISNIC er bent á að nýta sér fyrirframgreiðslukerfið (ISNIC-PP).

Breytingarnar eru helst þessar:

1) Reikningar eru nú gefnir út 30 dögum fyrir afmælisdag léns í stað 45 daga áður. Eindagi er alltaf afmælisdagur lénsins, og ekki er tekið tillit til frídaga.

2) Lén sem ekki hefur verið endurnýjað lokast sjálfkrafa kl. 13:00 daginn eftir afmælisdaginn (skráningardags. léns). Ekki er (lengur) tekið tillit til frídaga og þetta gerist sjálfvirkt.

3) Sé lén lokað í 30 daga samfleytt vegna greiðslufalls er því eytt sjálfkrafa á 31. degi. Ekki er tekið tillit til frídaga. Lén sem er lokað vegna tæknilegra vandamála er flutt sjálfvirkt á biðsvæði ISNIC eftir 29 daga í stað 59 áður.

Eins og fram kemur í fyrri tilkynningu er ástæða breytinganna einkum tvíþætt:

a. Afnám frídagareglunnar gerir ISNIC kleift að auka sjálfvirkni, sem er lykilforsenda þess að halda árgjaldi léna óbreyttu áfram.

b. Stytting eyðingarfrestsins úr 60 dögum í 30 daga ætti að hafa samsvarandi jákvæð áhrif á fjölda nýskráninga í mánuði. Lénakaupmenn og aðrir áhugasamir viðskiptamenn hafa lengi bent á allt of langan eyðigarfrest, sem fram að þessu hefur verið um tvöfallt lengri en þekkist hjá flestum (ef ekki öllum) öðrum höfuðlénum.

ISNIC

23. mar. 2018 - Skipulagsdagur ISNIC

Skipulagsdagur ISNIC

Skrifstofa ISNIC lokar kl. 11 í dag vegna árlegs skipulagsfundar, sem að þessu sinni verður haldinn í vininni Hveragerði. Netpjalli, síma og tölvupósti verður svarað frá Svíþjóð þar sem einn starfsmaður ISNIC hefur aðsetur.

Góða helgi.

8. feb. 2018 - Eyðingu og lokun léna flýtt frá 1. apríl 2018

Eyðingu og lokun léna flýtt frá 1. apríl 2018

ISNIC undirbýr nú að afnema hina svokallölluðu "frídagareglu", sem verið hefur við líði frá því elstu menn muna. Regla þessi (sem er skrifuð inn í hugbúnað ISNIC) hefur komið í veg fyrir að lén, sem ekki hafa verið endurnýjuð tímanlega, lokist og/eða eyðist á almennum íslenskum frídögum.

Frídagareglan var nauðsynleg þegar lén voru eingöngu endurnýjuð með bankamillifærslum og bókun þeirra handbókuð á skrifstofutíma. Nú er öldin önnur og í janúarmánuði voru aðeins 18 lén endurnýjuð með millfærslum.

Afnám reglunnar gerir ISNIC kleift að auka enn á sjálfvirkni kerfisins, sem er lykilforsenda þess að halda árgjaldi léna áfram óbreyttu. Samfara afnámi gömlu (góðu) frídagareglunnar verða reikningar með árgjaldi léna sendir út með 30 daga fyrirvara (gjaldfresti) í stað 45 daga áður, sem þýðir að lokun léns (lén gert óvirkt) sem ekki hefur verið endurnýjað verður 15 dögum fyrr á ferðinni en nú er, sé miðað við birtingardag reiknings.

Tíminn sem líður frá lokun léns að eyðingu þess (svonefnt grace period á ensku) verður einnig styttur úr 60 dögum í 30 daga, sem er jafnlangur tími og hjá flestum höfuðlénum, þótt 15 dagar þekkist líka. Breyting þessi tekur gildi eftir 1. apríl 2018.

Eftir ofangreindar breytingar mun ISNIC tilgreina nákvæmlega klukkan hvað og hvaða dag óendurnýjuðu léni verður lokað (gert óvirkt á netinu) og hvenær nákvæmlega því verður síðan eytt, sem verður 30 dögum eftir lokun þess. Með þessu móti verða lén sem hefur verið eytt, laus til skráningar á ný einum mánuði fyrr en áður. Það munar um minna fyrir ISNIC.

 

26. jan. 2018 - Aðalfundur ISNIC 2018

Aðalfundur ISNIC 2018

Aðalfundur Internets á Íslandi hf. (ISNIC) verður haldinn föstudaginn 2. febrúar kl. 16:00 í ISNIC-salnum á 18. hæðinni í Höfðatorgi, Reykjavík. Hluthafar, eða fulltrúar þeirra, geta fengið ársreikninginn 2017 sendan með tölvupósti frá og með 26. janúar. Hluthafar ISNIC eru 22 að tölu og nýr hluthafi, sem jafnframt er fyrsti fagfjárfestirinn - Lífeyrissjóður starfsmanna ríkissins (LSR) - bættist í hópinn um áramótin. 

Aðalfundur ISNIC er ávallt haldinn síðdegis á þeim föstudegi, sem liggur næst fyrstu mánaðamótum ársins og hefur félagið oft verið fyrst hlutafélaga til að skila ársreikningi til RSK. ISNIC er smáfyrirtæki með aðeins 8 stöðugildi og um 300 mkr. veltu, en með stórt hlutverk, sem skilgreint er sem einn af mikilvægum innviðum landsins. Hér er átt við reksturinn á höfuðnafnaþjónustunni (e. root DNS service) við landslénið .is.

Vöxtur ISNIC hefur í mörg ár verið jafn og góður, en vöxtur tekna á árinu 2017 reyndist þó aðeins um 1,6%. Lítinn vöxt tekna má að hluta skýra þannig, að um 1/5 hluti tekna ISNIC (og um 1/4 hluti léna) kemur frá útflutningi, en sífellt sterkari króna dregur úr tekjum í krónum talið. Annar hluti skýringarinnar felst í þeirri staðreynd að árgjald .is léna hefur aldrei hækkað, en lækkað þrisvar sinnum á undaförnum 10 árum. Góður árlegur vöxtur internetsins (vöxtur léna) hefur hingað til borið uppi vöxt og þar með hagnað, sem á síðasta ári nam um 1/3 hluta af veltu, eða 97,6 mkr. Endurskoðandi félagsins er KPMG.

JPJ.

 

Skráning .is léna

ISNIC - Internet á Íslandi hf. sér um skráningu léna undir landsléninu .is. Allar beiðnir um skráningu berast ISNIC, þó sótt sé um lénið hjá umboðsmanni eða þjónustuaðila ISNIC. Sjá lista yfir þjónustuaðila / umboðsmenn

Meginreglan við skráningu léna er "fyrstur kemur fyrstur fær". Í henni felst að ekki er hægt að taka frá hugmynd að léni. Sá sem óskar eftir léni þarf því að skrá lénið og greiða árgjald, 5.980 kr. til að öðlast rétt til þess.